Tíu lyklar að góðum árangri
Nokkur grunnlykilatriði eru nauðsynleg til að góður árangur náist og hafa þarf í huga að skipuleggja með faglegum hætti:
1. Að finna rétta vinabæi
Hver vinabæjatengsl eru sérstök en í flestum tilvikum er æskilegt að vinabæir eigi eitthvað sameiginlegt t.d. íbúafjölda, landfræðilega staðsetningu, atvinnulíf, félagsþjónustu, félagsstarf eða umhverfismál. Mikilvægt er að eiga samræðu við hugsanlega vinabæi áður en til formlegs samstarfs er stofnað m.a. til að ganga úr skugga um að þið hafið sameiginlegar hugmyndir og markmið.
2. Íbúar og félagasamtök þurfa að taka virkan þátt
Vinabæjatengsl geta ekki orðið að veruleika nema íbúar taki virkan þátt í þeim. Kjörnir fulltrúar og starfsfólk knýja verkefnið gjarnan áfram en vinabæjatengsl geta ekki einskorðast við þá. Skólar, íþróttafélög, frístundasamtök og önnur félagasamtök, t.d. félög eldri borgara þurfa að taka virkan þátt í starfinu. Þá verða vinabæjatengslin að vera sýnileg til þess að íbúunum finnist verkefnið snerta sig. Skilti við innganginn í sveitarfélagið eða bæjarskrifstofur, greinar á heimasíðu eða í héraðsfréttablaðinu geta stuðlað að því að vekja íbúana til vitundar um vinabæjatengslin. Gætið einnig að því að koma anda vinabæjatengslanna rétt á framfæri. Í þessu samhengi er gott að útskýra áhrif og ávinning af vinabæjasamstarfinu fyrir öllum í sveitarfélaginu.
3. Hin evrópska vídd
Innan Evrópu eiga góð vinabæjatengsl að stuðla að því að styrkja samkennd meðal íbúanna. Með vinabæjatengslunum læra íbúarnir ýmislegt um daglegt líf annarra, að ræða um vandamál sem að öðrum steðja og að uppgötva nýja menningu og tungumál.
4. Sameiginleg markmið
Rétt er að byrja á því að velta upp þeirri spurningu, hvers menn vænta af hugsanlegum vinabæjatengslum? Rétt er að skilgreina sameiginleg markmið, hvers konar verkefni eru hugsanleg og eins og mögulegt er, að setja tímamörk til að meta hvernig framgangur þeirra hefur verið. Ef þetta er ekki gert, getur misskilningur leitt til þess að vinabæjasamstarfið gengur ekki upp. Auk þess tryggir endurmat á verkefnum og hvort markmiðum hefur verið náð, að allir séu á sömu braut.
5. Myndið vinnuhóp um vinabæjatengslin
Með tímanum er hætta á að vinabæjasamstarfið missi dampinn. Í hverju sveitarfélagi/landshlutasamtökum ætti lítill, virkur hópur að sjá um að halda við samböndum, sjá samstarfinu fyrir verkefnum, leita að fjárstuðningi o.s.fv. Þessi „aflvaki” vinabæjasamstarfsins getur verið í formi vinnuhóps, sem er þá ek. tengiliður, samþykktur af sveitarstjórn og vinnur í tengslum við hana, viðkomandi samtök í sveitarfélagsinu og vinabæina.
6. Aðkoma skóla- og æskulýðsstarfs
Það eru margar leiðir færar til að fá skólana til að taka þátt í vinabæjasamstarfinu. Samskipti á milli skólabarna eru oftast eitt af því helsta í samstarfinu og getur m.a. orðið þeim hvatning til að læra tungumál íbúa vinabæjarins. Þessi verkefni leiða af sér þátttöku stórs hluta sveitarfélagsins því þau fela í sér aðkomu foreldra, starfsfólks skólanna, nemendasamtaka o.s.frv.
Einnig er hægt að tengja vinabæjasamstarfið við sk. eTwinning. Það er verkefni innan ramma áætlunar Evrópusambandsins, sem nefnist eLearning og hvetur til samstarfs skóla Evrópu í gegnum Internetið. eTwinning er í senn stuðningur, tæki og þjónusta sem greiðir fyrir því að komið sé á tengslum á milli skóla til skamms eða lengri tíma. Íslendingar eru aðilar að þessari áætlun og fjöldi skóla tekið þátt í verkefninu.
7. Hugað að málefnum samtímans
Verkefni, sem eru þróuð innan vinabæjasamstarfsins, geta vakið borgarana til umhugsunar, ekki síst þá yngstu, um þau málefni sem efst eru á baugi á okkar tímum. Margskonar verkefni snúast um efni eins og umhverfið, framtíð Evrópu, mannréttindi, frið, þjóðfélagsþátttöku eða jafnvel fótbolta og íþróttir almennt.
8. Verkefni hugsuð til langs tíma
Góð vinabæjatengsl eiga að standast tímans tönn og ekki vera háð breytingum á pólitískum meirihluta í bæjarstjórn. Íbúar beggja (allra) sveitarfélaga læra smám saman með árunum að mynda sterk vina- og tryggðarbönd. Sveitarfélög geta ekki reitt sig á aðra, nema löng vinátta sé fyrir hendi, þegar upp koma vandamál eða náttúruhamfarir verða.
9. Að skapa grunn fyrir frekari samskipti
Vinabæjasamstarf getur verið frábær grunnur til að þróa samstarf á sviði tækni. Að deila reynslu og vinna saman að ákveðnum efnum getur leitt til sameiginlegra lausna.
10. Fjármögnun
Að lokum: Gleymið ekki fjárhagsþættinum! Allt alþjóðlegt samstarf krefst fjármagns, hversu vel sem hugað er að undirbúningi og skipulagi.
Það getur verið gagnlegt að úthluta ákveðinni árlegri upphæð (hún þarf ekki að vera há) til vinabæjasamstarfsins. Auk þess getur vinabæjanefndin sjálf leitað leiða til aukafjármögnunnar, sem kemur þá öllum íbúum til góða.
Frekari upplýsingar um þetta, t.d. um stuðning frá Evrópusambandinu, er að finna á síðunni Fjárstuðningur á þessum vef.