Twinning.org
CCRE
header-image

Framtíðin

Í Evrópu eru vinabæjatengslin 17 þúsund. Sökum þess að bæir og borgir eiga oft fleiri en einn vinabæ, er erfitt að meta nákvæman fjölda vinabæja. en þeir eru miklu fleiri en vinabæjatengslin.

Jafnvel þótt sífellt fleiri Evrópubúar ferðist utanlands í fríum eða vegna starfs síns og þrátt fyrir gervihnattasjónvarp og internetið hefur vinabæjasamstarfið haldið velli. Hlutverk þess og starfsemi eru einstök því það gerir Evrópubúum kleift að hittast, deila hversdagslegri reynslu sinni og læra af reynslu annarra á mörgum sviðum, þjóðfélagslegum, menningarlegum, viðskiptalegum o.fl.

Vinabæjasamstarf samtímans getur snúist um mjög afmörkuð verkefni, svo sem vatnsveitumál, efnahagslega þróun eða bætta félagslega þjónustu. Fjöldi vinabæjatengsla á milli fleiri en tveggja aðila hefur einnig aukist. Þannig hefur þróun tengsla innan Evrópu leitt til aukinna tækifæra íbúa og sveitarfélaga til að deila með sér sérþekkingu og reynslu.

Í dag stuðla vinabæjatengslin að því að móta samevrópska sjálfsmynd sem verður aldrei hægt að þvinga ofan frá. Það að íbúar ólíkra landa hittast til að ræða erfið málefni á vinalegum nótum er einnig birtingarmynd þess að vera virkur evrópskur borgari.

Vinabæjatengslin stuðla að friði og skilningi á milli þjóða og samfélaga. Þau stuðluðu að því að gera íbúum landanna á Balkanskaganum kleift að byggja brýr sín á milli í kjölfar átakanna, sem þar geisuðu í lok síðustu aldar. Sérþekkingu og reynslu er miðlað á milli og þannig þjónar vinabæjasamstarfið því hlutverki að þróa og nútímavæða þetta svæði.  Þá spila vinabæjatengslin stórt hlutverk í heimsvæðingunni við að færa þjóðir og samfélög hvaðanæva úr heiminum nær hvert öðru – m.a. við að vinna að hinum sk. Þúsaldarmarkmiðum um þróun.