Twinning.org
CCRE
header-image

Stutt yfirlit

„Vinabæjatengslin eru stefnumót tveggja sveitarfélaga sem með þeim hætti lýsa yfir að þau tengjast til að starfa í evrópskum anda, til að takast á við vandamál og þróa með sér sífellt sterkari vinatengsl”.

Þannig skilgreindi Jean Bareth, einn af stofnendum CEMR, vinabæjatengsl eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Með því benti hann á helstu gildi, sem vinabæjasamstarfið stendur fyrir: Vináttu, samstarf og skilning á milli þjóða í Evrópu. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að árétta að núorðið eru oft fleiri en tveir þátttakendur sem koma að sama vinabæjasamstarfinu.

Vinabæjatengslin eru tákn evrópskrar einingar og sérkenna. Þau eru án efa sú mynd evrópsks samstarfs sem er mest áberandi, eins og skilti við inngang þúsunda sveitarfélaga og bæja bera vitni um, en á þeim er gjarnan tekið fram hverjir eru vinabæirnir.

Vinabæjatengslin eru sveigjanleg, þau geta verið á milli sveitarfélaga, landshlutasamtaka, byggðakjarna, borga, sýslna o.s.fv. Þau geta snúist um fjölbreytt viðfangsefni og falið í sér samstarf tveggja eða fleiri aðila.

Gott vinabæjasamstarf getur haft margskonar ávinning í för með sér. Með því að mynda tengsl við íbúa ólíkra svæða í Evrópu er hægt að takast á við sameiginleg vandamál, skiptast á skoðunum og uppgötva ólík sjónarhorn á sameiginlegu hagsmunamáli.

Vinabæjatengslin bjóða t.d. upp á að ungt fólk af ólíkum uppruna geti komið saman, kynnst og öðlast þannig meira sjálfstraust. Þau geta einnig stuðlað að auknum skilningi á Evrópu, stöðu hennar í heiminum í dag og í framtíðinni.

Mörg dæmi eru um vel heppnað starf, sem sannað hefur gagnsemi vinabæjasamstarfsins, ekki síst á sviðum lista og menningar, ungmennastarfs, félagsstarfs, sjálfbærrar þróunar, virkrar þátttöku í þjóðfélagsmálum og samkenndar.

Vinabæjasamstarfið er meira en bara framkvæmd á ákveðnu tímabundnu verkefni því tengslin fela í sér skuldbindingu til lengri tíma á milli aðila. Vinabæjatengslin eru óháð breytingum á pólitískum vettvangi og tímabundnum erfiðleikum, sem geta haft áhrif á annanhvorn/einhvern aðilanna. Aftur á móti bjóða þau upp á gagnkvæman stuðning á erfiðleikatímum, t.d. í náttúruhamförum. Þar sem um langtíma skuldbindingu er að ræða, þarf reglulega að endurskoða vinabæjasamkomulagið til að tryggja að það falli að þörfum hverju sinni og að það sé lifandi og kröftugt.

Vinabæjatengslin krefjast tvöfaldrar skuldbindingar: Af hálfu yfirvalda viðkomandi aðila þ.e. sveitarfélags, landshlutasamtaka o.s.frv. og af hálfu íbúanna, þ.e. að samstarfið er ekki líklegt til að heppnast nema íbúarnir taki virkan þátt í því! Þessi tvöfalda skuldbinding krefst þess gjarnan að stofnuð sé vinabæjanefnd, sem hefur það hlutverk að vera tengiliður á milli yfirvalda, íbúa og vinabæjanna.